Vikan sem var

 

Vikan 5.-11. maí

Vorhreingerning í garðinum

Í garðinum framan við húsið okkar er ekkert gras, bara steypt plata og steinlagðir fletir, auk trjábeða. Vor og haust þarf að háþrýstiþvo steypta flötinn. Á hann sest græn slikja úr laufi og öðrum gróðri sem fellur á steininn og í þetta blandast svifryk frá nálægum umferðaræðum og fjarlægum eldstöðvum og uppblásturssvæðum. Þvotturinn verður þyngri með hverju árinu sem líður, líklega vegna þess að yfirborð stéttarinnar verður smám saman hrjúfara vegna slits. Núna tók þetta líklega 9-10 tíma alls, deilt á fjóra daga, enda töluvert líkamlegt erfiði. Það er kominn tími á að endurnýja hlífðarhúðina, slitsterka gráa efnablöndu sem þolir frost, snjó og ágang.

Lilja sér um að reyta arfa og hreinsa trjábeðin og ver enn meiri tíma í þessi verk en ég í háþrýstiþvottinn. Ég á erfitt með að bogra, er of stífur í baki, en get fremur unnið verk þar sem ég stend uppréttur.

Við erum snemma á ferðinni með vorverkin þetta árið, enda erum við heima nær öllum stundum og engin ferðalög eða kóræfingar og tónleikar sem valda frátöfum.

Vortónleikum frestað

Eftir að samkomubannið var sett á hætti Valskórinn að æfa í Friðrikskapellu en tók í staðinn upp fjaræfingar á netinu. Þeim lauk í lok apríl og vortónleikunum hefur verið frestað til 18. október. Væntanlega heldur Frímúrarakórinn einnig tónleika í haust í stað árlegra vortónleika sem áttu að vera 21. mars. Það verður því mikið sungið í haust og ég verð að fara vel með röddina í sumar.

Langömmusystur í Kanada

Ólöf Pálsdóttir, náfrænka mín, sendi mér ljósrit af tveimur sendibréfum frá frænkum í Kanada sem henni bárust árið 1953 þegar hún var við nám í Bandaríkjunum. Þær voru dætur Sigríðar Eyjólfsdóttur, langömmusystur minnar, sem fluttist til Kanada árið 1887 og lést árið 1938. Bréfin eru á góðri íslensku þótt systurnar hafi aldrei til Íslands komið, aðeins lært málið af foreldrum sínum og ættingjum þar vestra.

Ég hafði áður séð minningargreinar um Sigríði í vestur-íslensku blöðum og ritum, en þessi bréf urðu mér tilefni til að leita að nýju heimilda um Ingveldi, systur Sigríðar, sem fluttist vestur líklega árið 1893. Ég hafði áður reynt en ekki tekist að finna neitt um hana annað en að hún hafi tekið upp ættarnafnið Smith eftir eiginmanni sínum og búið í Winnipeg. Í símtali sagði Ólöf frænka mér ýmislegt af því sem Ólöf langamma mín (og amma Ólafar) sagði henni frá heimsókn þeirra systra, Sigríður og Ingveldur, til Íslands á alþingishátíðina 1930. Þegar ég síðan rakst á farþegalista skipsins sem flutti þær aftur heim til Kanada í ágúst 1930 fann ég nýtt nafn Ingveldar sem nú kallaðist Ina Smith og þar var einnig nafn eiginmannsins sem tók á móti henni við komuna og heimilisfang þeirra. Þar með var komið nægilegt hráefni til að hefja nýja leit í ýmsum opinberum skjölum í ættfræðigagnagrunnum og ég fann margar skráningar sem gáfu mér mynd af fjölskyldu Ingveldar og heimilishögum.

Ég á enn eftir að vinna úr þessum upplýsingum en ég sá þarna eitt og annað sem ég held að ættingjar mínir af Vatnsholtsættinni (úr Grímsnesinu) hafi gaman af að heyra næst þegar ættin hittist.

Þetta dæmi sýnir hvernig gömul sendibréf og munnleg geymd (frásagnir Ólafar langömmu sem Ólöf frænka mundi) geta orðið lykillinn að lausn á gátu, í þessu tilviki gátunni um hvað varð af Ingveldi fyrir vestan. Hún hafði sem sé breytt nafni sínu, enda nafnið Ingveldur ekki auðvelt í framburði fyrir enskumælandi fólk. Framan af var hún skráð sem Inga og eftirnafnið var Oleson eða Olson (hljóðlíking við seinni hlutann af föðurnafni hennar Eyjólfur), en seinna var nafnið stytt í Ina. Algengt var að Íslendingar breyttu nafni eftir að þeir settust að vestra og það getur torveldað leitina að skjölum og heimildum á netinu.

Vikan 28. apríl – 4.maí

Höfðað til hjálpseminnar

Mér barst áhugaverður tölvupóstur. Sendandi var Julia Yadima, en netfangið gaf ekki til kynna hvaðan pósturinn var sendur.

„Kveðjur mínar til þín.
Ég heiti ungfrú Julia Yadima. Ég er 22 ára og munaðarlaus.
Ég á innborgun í viðskiptabanka hér á hæfilegu magni sem er í arf frá föður mínum. Ég vil að þessi sjóður verði fluttur héðan til fjárfestinga erlendis.
Ég þarf bráð svar þitt til að gera mér kleift að veita þér allar upplýsingar varðandi mitt og sjóði.
Takk fyrir hjálpina.
Kveðja,
Fröken Julia Yadima“

Ég fæ af og til áþekka tölvupósta sem eru tilraun til að hefja samskipti sem geti gert sendandanum mögulegt að svíkja út úr mér peninga. Stöku sinnum fæ ég símtöl erlendis frá í sama tilgangi. Ég er fljótur að bíta þetta af mér. Þegar ég vann hjá Kaupþingi fyrir nærri 30 árum kynnti ég mér erlenda svikastarfsemi og skrifaði grein í tímaritið Vísbendingu til að vara við fyrirtækjum sem reyndu að féfletta fjárfesta.

Hjólað á sumrin

Að þessu sinni dró ég reiðhjólið fram síðasta vetrardag, um líkt leyti og í fyrra. Ég reyni að nota það í stað bíls til styttri ferða, til dæmis til að kaupa í matinn, sækja fundi og sinna öðrum erindum í póstnúmerum 101, 103 og 105. Þetta er skemmtilegt og hressandi.

Mér finnst gaman að hjóla erlendis og geri það í öllum heimsóknum til Berlínar og gjarnan í Kaupmannahöfn. Það er ólíkt skemmtilegra að upplifa borgir með þessum hætti en að skoða þær út um bílglugga. Í þessari viku hefði ég átt að hefja hjólaferð um eyjar við Króatíustrendur í góðum hópi Íslendinga, en vegna Covid-veirunnar var ferðinni frestað um eitt ár.

Eigi er skeggið skafið…

Ég leitast við að flokka sorp til endurvinnslu. Þess vegna braut ég hausinn af raksköfunni þegar blöðin voru hætt að bíta til að geta hent plasthandfanginu með öðru plasti. Fjórum dögum síðar var ekki unnt að fresta næsta rakstri lengur og ég bar á mig raksápuna. Þá kom í ljós að þetta hafði verið síðasta skafan í pakkanum. Eftir mikla leit – með hvíta raksápu á kjammanum – fann ég loks gamla raksköfu fyrir konur sem Lilja notaði fyrir löngu til að raka hárin í handarkrikanum. Blöðin voru nánast bitlaus og þetta var sárasti rakstur sem ég hef nokkurn tíma fengið. Mér kom í hug nýr málsháttur: Eigi er skeggið skafið þótt sápa sé komin á kjammann.

Bókasöfn opin á ný

Ég gleðst mjög yfir að bókasöfn eru nú opin að nýju. Ég fór strax fyrsta opnunardaginn í Kringluna og tók þar m.a. þrjár bækur úr síðasta jólabókaflóði, tvær skáldsögur og eina ævisögu. Ég fer gjarnan verulega klyfjaður heim af bókasafni með 6-8 bækur, sumar til yndislesturs, aðrar til uppflettingar vegna grúsks í ættfræði eða sagnfræði.

Vikan 21.-27. apríl

Páskaegg nr. 3 og 4

Þriðji málshátturinn átti eiginlega ekki við mig, hann passar miklu frekar við stóran hluta jarðarbúa við núverandi aðstæður.

Neyðin kennir naktri konu að spinna.

Ég er svo vel settur að óttast ekki atvinnuleysi, enda kominn á lífeyri, og ég hef eiginlega allt til alls nema ferðafrelsi til útlanda og ég get beðið þolinmóður eftir að úr því rætist.

Ég get ekki hlakkað til þess að spá í fjórða málsháttinn. Eitt barnabarnið fann síðasta eggið og áður en ég vissi af var búið að opna það og borða allt súkkulaðið. Málshátturinn er týndur og tröllum gefinn. Ég get þó lagst í fræðimennsku og reynt að finna málshátt sem hæfir þessari uppákomu. Í bókinni Orð að sönnu eftir Jón G. friðjónsson fletti ég upp orðinu barn og þar voru margir tugir málshátta um börn. Ég vel þennan:

Aldrei grætur barnið þá það fær sinn vilja.

Vinkona í dulargervi – og andskotinn sjálfur í spilinu

Ég lít jafnan á tilkynningar Facebook um afmælisbörn dagsins meðal Fb-vina minna og sendi hamingjuóskir þeim sem ég þekki persónulega og myndi óska til hamingju ef ég mætti þeim á förnum vegi. Ég á einnig allmarga Fb-vini sem ég þekki ekkert til. Þeir hafa óskað eftir vinskapnum af ýmsum ástæðum, t.d. vegna bókarinnar minnar, útvarpsþáttanna eða orðspors míns – eða eru kannski bara að safna vinum til að gera líf sitt og lestur Facebook skemmtilegri.

Í vikunni sagði Facebook mér að vinkona mín Hólmfríður Skúladóttir yrði 17 ára þennan dag. Ég kannaðist ekki við nafnið og þar sem hún líktist einna helst þeim fjölmörgu fáklæddu og íturvöxnu erlendum stúlkum sem hafa sóst eftir að verða Fb-vinir (en ég hef alltaf hafnað) þá fletti ég henni upp í Íslendingabók. Þá kom í ljós að engin kona með þessu nafni hefur fæðst á þessari öld, en tvær eru á lífi, önnur nærri fimmtug og hin komin yfir sjötugt. Ég lét því músarbendilinn sveima yfir nafninu hennar á Facebook og sá þá neðst í vinstra horni skjásins að á bak við þessa Facebook skráningu stóð nafnið Muhammad Alduni. Þetta var sem sagt erlendur karlmaður í dulargervi. Ég strikaði hann/hana snarlega út af vinalista mínum.

Reyndar sá ég að á listanum voru nákvæmlega 666 vinir – og frá fornu fari hefur sú tala verið einkennistala andskotans sjálfs. Ég áttaði mig þarna á því að hann er farinn að sækjast eftir vinskap á Facebook – en ég sá við honum! Sem betur fer hafa nýir alíslenskir vinir bæst í hópinn og ég á alls 669 vini og er því væntanlega sloppinn undan ásókn hins illa.

Þakleki

Í orðskviðum Salómons í Gamla testamentinu segir í kafla 27:15:

Sífelldur þakleki í rigningatíð og þrasgjörn kona
er hvað öðru líkt.

Ég þarf ekki að kvarta yfir að Lilja sé þrasgjörn, en því miður hefur þakið á húsinu okkar lekið af og til  um nokkurra missera skeið. Lekans hefur þó nær eingöngu orðið vart hjá nágrönnunum, ekki okkur, og þrátt fyrir ýmsar tilraunir til að finna orsökina og að þétta möguleg göt þá hefur ekki tekist að koma í veg fyrir lekann. Með hækkandi sól og hlýnandi veðri á nú að reyna að grípa til róttækra aðgerða. Kallaðir verða til sérfræðingar og reynt að velja besta úrræðið. Þótt ekki leki ofan á okur Lilju er þakið sameign og þess vegna munum við að sjálfsögðu leggja okkar af mörkum til að vandinn leysist varanlega.

Kannski er svarið einnig að finna í Biblíunni – í Orðskviðunum eða annars staðar?

Vikan 14. – 20. apríl

Páskaegg nr. 2 

Fyrir páska keypti ég pakka með fjórum páskaeggjum af minnstu gerð  (nr. 1) frá Nóa-Síríus í stað þess að kaupa eitt stórt með sælgæti – og bara einum málshætti. Ég ákvað að opna eitt egg fjóra sunnudaga i röð. Nú var komið að eggi númer tvö og þar var málshátturinn svona:

Gakktu í dans en gáðu hvar þú stígur

Hann hæfir mér fullkomlega. Ég er (næstum) alltaf til í að prófa eitthvað nýtt viðfangsefni sem reynir á hæfileika mína (og þar með er sem betur fer ákaflega margt útilokað sem ég hef enga hæfileika til!!). Ég er því til í að ganga í dansinn – en ég er samt varkár, reyni að undirbúa mig sem best og vanda mig í verkunum til að skila sem bestum árangri.

Guðmundur Björnson (Gestur) landlæknir

Ég las af áhuga grein í Morgunblaðinu um Guðmund Björnson sem var landlæknir 1918 þegar Spánska veikin herjaði á Ísland. Ég var nefnilega hann í nokkrar klukkustundir fyrir tveimur árum. Þegar Listahátíð 2018 fagnaði fullveldisafmælinu með því að bjóða fólki að klæðast gamaldags fötum og ganga um götur miðborgarinnar eins og gestir frá 1918 – og ég tók þátt í því –  þá fékk ég nafnspjöld sem sýndu að ég væri Guðmundur landlæknir og alþingismaður. Ég var auðvitað upp með mér af þessu – en seinna frétti ég að það hefðu fleiri en ég fengið sama hlutverk. Hvað um það, ég fór að gefa nafni hans gaum þegar ég rakst á það í umfjöllun fjölmiðla eða í grúski mínu á netinu.

Ég varð undrandi að lesa í Mogganum að Guðmundur hafi neytt kókaíns reglulega. Ég hélt að slík fíkniefni væru miklu yngra fyrirbæri. (Ég vissi þó að ópíum var algengt erlendis löngu fyrr). Ég las einnig að hann hafi fengið mikla gagnrýni fyrir slaka frammistöðu í viðbrögðum við farsóttinni. En hann átti líka sínar góðu hliðar, var m.a. skáldmæltur og notaði skáldanafnið Gestur. Ég hef áhuga á að kynna mér sögu hans nánar á næstunni.

Ritstörfin – Saga Skaftahlíðar 1-3

Ég hef einsett mér að gefa ritstörfunum meiri tíma og vægi. Ég er farinn að kíkja á efnið sem ég hafði safnað um sögu hússins Skaftahlíðar 1-3 og fyrstu kaflana sem ég hafði skrifað fyrir ári síðan. Ætlunin er að setja saman bók sem verði að minnsta kosti gefin út á rafrænu formi og kannski prentuð.

Húsið og garðurinn eru viðfangsefni mitt og kjarni bókarinnar og þá koma hönnuðir og íbúar hússins við sögu líka, þótt ég hyggist ekki gera ævisögu þeirra að meginmáli. Arkitektinn, Hannes Kr. Davíðsson, húsbyggjandinn, Stefán Kristinsson, og hönnuður garðsins (og eigandi hálfs parhússins á þeim tíma), Jón H. Björnsson skrúðgarðaarkitekt, eiga allir merkilega sögu – og hluti hennar tengist þessu húsi sem var byggt á árunum 1947-48.

Þann 1. júlí næstkomandi verða liðin 30 ár frá því að við Lilja fluttum ´hér inn. Við erum þeir íbúar í neðri hlutanum (nr. 1) sem lengst hafa búið í þeim hluta hússins, en fjölskyldan í efri hlutanum (nr. 3) verður þá búin að vera hér í 40 ár. Þetta er auðvitað tilefni til fagnaðar. Fylgist með.

Ættfræðigrúskið og útvarpsþættirnir

Ég hef fengið góð viðbrögð við útvarpsþáttunum mínum Hver er ég – og hvers vegna? Jafnframt hafa ýmsir lýst yfir áhuga á námskeiðum mínum um ættfræðigrúsk. Gott mál.

Í kjölfarið hef ég fengið nýjar hugmyndir að útvarpsþáttum sem tengjast ættfræðigrúski og nú þarf ég að ræða við dagskrárstjóra Rásar eitt til að kanna hvort áhuga sé á að fá slíkt efni frá mér. Fylgist með.

Áskorun Halldórs og Facebook-leikir

Halldór bróðir minn birti mynd af Yes-plötu á Facebook, sagði þetta vera eina af 10 mikilvægustu hljómplötum lífs síns, og skoraði jafnframt á mig að birta 10 slíkar plötur úr mínu lífi.

Ég kynnti hann á sínum tíma fyrir hljómsveitinni Yes þegar ég bauð honum á tónleika hljómsveitarinnar í Gautaborg i nóvember 1977. Hann var þá 14 ára unglingur, nýfluttur til Gautaborgar með foreldrum okkar, en ég hafði óvænt verið sendur þangað sem stöðvarstjóri í leiguflugsverkefni Arnarflugs. Reyndar var ég spenntari fyrir upphitunaratriðinu á tónleikunum, söngvaranum Donovan sem hafði verið stjarna um 10 árum áður. Þegar á hólminn var komið reyndist Donovan lítt áhugaverður en hljómsveitin Yes var enn betri en ég átti von á.

Halldór hefur síðan verið mikill Yes-aðdáandi og ég hafði þannig mikil áhrif á tónlistarsmekk hans.

Ég hef hunsað áskorun hans um að birta 10 plötur á 10 dögum á Facebook – af tveimur ástæðum. Önnur er sú að ég er ekki hrifinn af Facebook-leikjum eða áskorunum. Ég vil gjarnan sjá fólk segja frá sjálfu sér, því sem það fæst við og á daga þess drífur, en mér finnst þessir leikir og áskoranir verða þreytandi og ég vil ekki hella úr minni fötu í þá botnlausu tunnu. Hin ástæðan er sú að ég vil gefa þessu viðfangsefni meiri tíma og vandaðri umfjöllun. Tónlist hefur verið einn af mikilvægustu þáttum í lífi mínu og ef ég ætti að skrifa ævisögu mína væru margir kaflar um tónlistina, þátttöku mína og upplifun. Ég stefni að því að skrifa um 10 mikilvægar plötur – eða lög/flytjendur – og kannski birtist það hér á næstunni.

Vikan 7. – 13. apríl

Páskaegg

Ég vil helst ekki fá stærra páskaegg en númer 1, það er minnsta egg sem í boði er MEÐ málshátt innra. Eiginlega er það bara málshátturinn sem skiptir máli. Núna var hann svona:

Margur hyggur auð í annars garði

Ég tók þetta ekki til mín, enda finn ég sjaldan til öfundar út af veraldlegum gæðum sem öðrum hlotnast. Ég öfunda aðra helst af upplifun, gjarnan af einhverju sem tengist náttúrunni eða listum. Mér finnst eftirsóknarvert að upplifa tilkomumikið landslag og lifandi flutning, gjarnan óperur og leiksýningar.

Kannski gaf málshátturinn í skyn að ég væri sjálfur auðugur. Það er ég reyndar, þó ekki af peningum eða auðseljanlegum eignum. En fjölskylda mín og vinir eru mín mesta auðlegð, auk góðrar heilsu.

Afmælisdagar

Ég er minnugur á dagsetningar innan ársins, einkum afmælisdaga ættingja og vina, en einnig ýmsa aðra daga sem gleðja mig þegar þeir renna upp. Í þessari viku voru þeir tveir.

Ég fermdist 7. apríl 1963 á pálmasunnudegi og á góðar minningar frá þeim degi. Það er dálítið merkilegt að ég man næstum engar fermingargjafir nema þær tvær sem mér fannst helst óspennandi þann daginn. Báðar hafa þær orðið mér kærar með tímanum. Stór plata með píanókonsert og annarri tónlist eftir Grieg. Nýja testamentið í veglegri útgáfu.

Arnarflug var stofnað 10. apríl 1976. Ég starfaði hjá félaginu í rúm 9 ár, frá ágúst 1977 til september 1986. Ég kom oft að kynningarmálum félagsins og því var stofndagur þess iðulega á vörum mínum. Þetta var einstakur vinnustaður vegna mikillar samstöðu og baráttuvilja starfsfólksins og ég tel það hafa verið mikla gæfu að fá að starfa í slíku umhverfi, þótt sjaldnast hafi rekstur félagsins verið dans á rósum.

Nýjar, hollar venjur

Hóflegar vangaveltur undanfarna daga leiddu til þeirrar niðurstöðu að ég vildi reyna að tileinka mér meiri aga í tímastjórnun og hreyfingu. Nú er að sjá hvernig það gengur.

Ég vil reyna að stunda styrkjandi hreyfingu (líkamsrækt, göngur og hjólreiðar) að minnsta kosti fimm daga af sjö. Leikfimin hjá Gauta er í boði fjóra daga vikunnar (og tækjasalur þann fimmta), en ég hef yfirleitt  farið bara tvo morgna í viku. Ég geri síðan teygjuæfingar heima flesta aðra daga. Þetta er þó ekki nóg. Í sjálfskipuðu sóttkvínni að undanförnu hef ég haldið óbreyttri líkamsþyngd, þrátt fyrir að gera vel við mig í mat og drykk, og það þýðir bara að vöðvamassinn hefur rýrnað en fituprósentan hækkað. Nú ætla ég að taka mig á. Gauti heldur úti fjarfundaræfingum á netinu fyrir hópana sína og ég er byrjaður að mæta þar. Jafnframt ætla ég að lengja göngur og taka reiðhjólið fram þegar hlýnar – ég vil ekki eiga á hættu að kvefast um þessar mundir.

Ég vil auka virkan vinnutíma við sköpun (skriftir eða annað) og við tiltekt og endurbætur á heimilinu, en minnka ómarkvisst ráp á netinu.

Það tekur nokkurn tíma að festa góðar venjur í sessi, sumir segja þrjár vikur, aðrir þrjátíu daga. Sjálfskipaða sóttkvíin stendur a.m.k. fram í maíbyrjun, þannig að nú er góður tími til að reyna að ná fram varanlegri breytingu til bóta.

Vikan 31. mars – 6. apríl

Það sem ég óttaðist mest

Þegar ögurstundin nálgast kemur í ljós úr hverju maður er gerður. Undanfarið hef ég ekki óttast að veikjast af kórónu-veirunni mín vegna. Mér finnst ég vera í það góðu formi að ég hljóti að komast í gegnum veikindin án verulegra vandkvæða. Nei, það sem ég óttaðist mest var að ná ekki að ljúka gerð útvarpsþáttanna á tilsettum tíma. Vinnan gengur alltaf fyrir eigin velferð.

Fyrst var óttinn við að ég myndi veikjast áður en síðasta viðtalið næðist inn í stafræna upptökutækið. Viðmælandinn var í einangrun, hafði veikst erlendis, og ég þurfti að bíða þar til aðeins voru sjö og hálfur dagur fram að útsendingu fyrsta þáttarins. Ef ég hefði veikst á þessum tíma var ekki nægt efni til að vinna úr.

Ég óttaðist minna að verða veikur eftir að viðtalið væri komið í hús. Ég þóttist viss um að ég gæti klippt efnið og sett þáttinn saman þótt veikur væri. Ég hef oft unnið undir miklu álagi, stundum veikur, stundum svefnlítill (lengsta törnin í pílagrímaverkefnum í Sádi-Arabíu var 36 tímar).

Allt gekk þetta þó upp með skaplegum hætti og ég gat skilað síðasta þættinum af mér á mánudagskvöldi, 60 tímum áður en sá fyrsti færi í loftið.

Kvöldið eftir lá ég í rúminu og hlustaði á þáttinn eftir að starfsmaður RÚV hafði hljóðblandað og sett inn umbeðna tónlist. Og þá laust niður í höfuð mér hugmyndinni að næstu þáttaröð! Mér er ekki viðbjargandi. Aldrei hvíld.

Rétti tíminn fyrir nýjar, hollar venjur

Ég hef velt því fyrir mér að reyna að nýta þessar „fordæmalausu“ aðstæður til að reyna að koma mér upp hollum og skynsamlegum venjum. Ég sé færslur á Facebook, greinar í blöðum og á netinu og heyri hvatningu í ljósvakamiðlum um að nota tímann þegar allt það hefur vikið sem vanalega tekur svo mikinn tíma að vart er stund aflögu fyrir eigin hag.

Ég ætla að nota bænadagana og páskana til að hugleiða þetta. Fylgist með þessum pistlum til að fá fregnir af ákvörðuninni, ef einhver verður.

Ég hef oft fundið til löngunar til að koma einhverju í verk eða bæta mig á einhvern hátt. Minna hefur orðið að veruleika en ég hefði kosið.  Í seinni tíð hef ég gripið til þess ráðs að segja sem flestum frá fyrirætlunum mínum – eins konar loforð til umheimsins um að láta verða af þessu. Það setur þrýsting á mig og ég hef fyrir vikið náð að gera eitt og annað sem ég gleðst yfir.

Nú er að sjá hvað kemur út úr þessu. Fyrst er að taka ákvörðun (eftir páska) og síðan að fara að vinna að því að ná markinu.

Vorið er komið

Í fyrra eða hitteðfyrra samdi ég lítið ljóð þegar vorið lét bíða eftir sér. Það var einhvern veginn á þessa leið:

Vorið er komið
en það þorir ekki út
húkir inni
vegna veðurs.

Mér fannst þetta dálítið smellið.

Nú eru aðstæðurnar engu betri og undanfarna daga hefur hugmynd að ljóði stungið upp kollinum af og til í huga mér, þar til í dag að ég ákvað að setja það á blað.

Vorið er komið

Vorið er komið
náði loks til landsins
eftir miklar tafir á samgöngum
og flug lagðist næstum niður
 
Vorið fór beint í sóttkví
og varast snertingu við fólk og fénað
 
Ástandið er ótryggt
og vorið gæti lent í einangrun
 
Þjóðin mænir á daglegar útsendingar
í sjónvarpinu í lok kvöldfrétta
Fræðingar draga upp dökka mynd
laugardagslægðin í aðsigi
appelsínugular viðvaranir
dökkblár litur í kortunum
umlykur landið
 
Lengi getur vont versnað
Ferðaþjónustuaðilar segja
að sumarið sé farið
allt er í frosti
 
Búið ykkur undir það
 
Frostasumarið mikla 2020

Vikan 24.-30. mars

Tíðindalaust á heimavígstöðvunum

Við fyrstu sýn virðist eins og þetta séu tilbreytingarlitlir dagar. Ég fer sjaldnar úr húsi en venjulega og fáir koma í heimsókn. Stundaskráin í dagbókinni er næstum tóm, hvergi þarf að mæta, fátt sem þarf að gera eða ljúka innan tímamarka. En þegar að er gáð er samt alltaf eitthvað að gerast.

Ég fór á einn fund í vikunni með sjö þátttakendum sem leituðust við að virða tveggja metra regluna og aðrir þrír tóku þátt í fjarfundarforriti. Ég hitti nokkur árgangssystkini mín úr MR – eitt í einu og í hæfilegri fjarlægð – og afhenti þeim minnislykla með myndefni árgangsins sem ég hef dundað við að setja saman í meira en eitt ár og var loks tilbúið til dreifingar nú í mars. Við Lilja fórum í nokkra göngutúra og enn var tveggja metra reglan höfð í huga. Flest kvöld horfðum við saman á sérvalið sjónvarpsefni og sátum til öryggis i tveggja metra fjarlægð frá skjánum. Eitt kvöldið var kóræfing Valskórsins í fjarfundarbúnaði. Mamma kom í heimsókn frá Selfossi í tengslum við skoðun hjá augnlækni. Við Lilja buðum Hildi Kristínu og Sólveigu og fjölskyldu í kvöldmat og ég steikti grísasíðu með stökkri puru (og var ánægður með hvað það tókst vel). Við litum inn í kaffi til vinafólks – tókum áhættuna, enda hafði enginn í kringum þau eða okkur smitast til þessa. Ég fór með bílinn á verkstæði, minniháttar lagfæringar, og skrapp í Ríkið í leiðinni (í næsta húsi). Þess utan var ég jafnt og þétt að vinna að útvarpsþáttunum þremur, klippa viðtöl, semja kynningar, velja tónlist.

Sem sagt, tíðindalaust, eða þannig sko.

Vorferðum aflýst

Nú er búið að fella niður flugin til og frá Berlín í marslok/aprílbyrjun. Inneignarmiðar fást fyrir öllu sem hafði þegar verið greitt og gisting var afpöntuð án kostnaðar.

Hjólaferðinni um eyjar í Króatíu hefur verið frestað um eitt ár. Gistingin fékkst endurgreidd og beðið er átekta til að sækja inneignarmiða hjá flugfélögum til að ná sem lengstum gildistíma.

Inneignarmiðar eru skárri kostur en að tapa peningum, en útsjónarsemi þarf til að skipuleggja ferðalög í haust eða næsta vetur þannig að inneignin nýtist áður en hún rennur út. Kannski er skynsamlegast að kyngja tapinu, það yrði líklega ódýrara en að fara í tilefnislítið ferðalag.

Barnið fær ósk uppfyllta

Þegar Hildur Kristín var líklega 12-13 ára bað hún um að nýr örbylgjuofn yrði keyptur því að sá gamli væri svo ljótur. Við brugðumst við þessari ósk nú í vikunni, um 20 árum síðar, því að sá gamli gafst upp eftir 30 ára farsæla þjónustu. Nú er bara eitt heimilistæki eftir af þeim sem við keyptum á búsetuárum okkar í Bandaríkjunum – þurrkarinn í þvottahúsinu. Hann hefur reyndar verið notaður minna en ætla mætti því að hitinn í þvottahúsinu þurrkar allan þvott hraðar en gengur og gerist. Sem betur fer hafði Hildur Kristín ekkert út á þurrkarann að setja. Hún gæti þurft að bíða einhverja áratugi enn eftir að sjá hann fara á haugana.

Vikan 17.-23. mars

Í vari

Sem betur fer höfum við Lilja lítið á okkur könnu um þessar mundir, fáum skyldum að gegna utan heimilisins. Samkomubannið hefur því lítil áhrif á okkur, helst að það beini menningarneyslu okkar á aðrar brautir, af því að við verðum að hætta ferðum í leikhús, bíó, á bókasöfn og listasöfn. Aldurs vegna teljumst við vera í meiri áhættu en yngra fólk og því förum við minna úr húsi en venjulega en reynum þó að fara í gönguferðir. Við horfum heldur meira á sjónvarp en venjulega og veljum þá gjarnan kvikmyndir og sjónvarpsþætti sem fjalla um raunverulega atburði og ævi þekkts fólks. Þar stendur The Crown á Netflix upp úr.

Á „framandi“ slóðum

Gönguferðir undanfarinna daga hafa glatt okkur. Við gengum frá bílastæði Sundahafnar við Skarfaklett, fyrst út á hafnargarðinn í átt að Viðey og síðan í hina áttina að Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi. Í næstu ferð gengum við niður og upp Laugaveginn í roki og rigningu. Fáir voru á ferð og það var dálítið sérstakt að fara um götuna við þessar aðstæður, engir ferðamenn, nær allar verslanir lokaðar, nær engir inni á veitingastöðum. Annan dag gengum við um svæðið við Klepp, horfðum yfir athafnasvæði Eimskips og síðan sagði Lilja mér frá reynslu sinni sem hjúkrunarnemi á Kleppi forðum daga (í nokkrar vikur).

Það þarf ekki endilega að fara langt til að sjá eitthvað óvenjulegt eða spennandi.

Fjarkennsla um ættfræðigrúsk

Vegna samkomubannsins varð að breyta kennslu annars kvöldsins af þremur í námskeiði mínu um ættfræðigrúsk í Endurmenntun Háskóla Íslands. Nemendur fengu ekki að koma á staðinn en var boðið upp á fjarkennslu. Flestir tóku þátt. Ég var ekkert hræddur við þetta en var þó dálítið fálmandi í notkun forritsins sem miðlaði kennslunni. Tveir nemendur höfðu seinna samband og lýstu ánægju sinni með hvernig til hefði tekist. Það gladdi mig.

Ég hef fengið mikið hrós fyrir líflega kennslu á fyrri námskeiðum. Ég á auðvelt með að ná til nemenda og ég finn strax hvernig gengur að vekja áhuga þeirra – ef ég sé þá og heyri. Þessi nálægð er ekki til staðar í fjarkennslunni, enda var ég hálf týndur eftir kennslu kvöldsins. Ég kom mun þreyttari heim en venjulega, fékk ekki þá næringu sem viðbrögð nemenda í venjulegri kennslustund veita mér.

Ákveðið var að geyma þriðja tímann þar til samkomubanni er aflétt. Þá verða sýndir fjölmargir munir og gögn, möppur, myndir, kort og fleira, sem tengjast ættfræðigrúski gestakennarans, Guðfinnu Ragnarsdóttur. Nemendur verða að fá að handfjatla þetta og horfa um leið og hlusta á Guðfinnu sem blæs þeim eldmóð í brjóst. Þessu er engan veginn hægt að koma til skila í fjarkennslu – nema með ógurlegri fyrirhöfn sem engin ástæða er til að standa í. Aftur kemur vor í dal og þá verður gaman að hitta nemendur á nýjan leik. Vonandi hefur leiðsögn mín auðveldað þeim grúskið í millitíðinni.

Vikan 10.-16. mars

Heilsufar á tímum Covid-19 veirunnar

Ég hef ekki fundið til teljandi ótta við veiruna og hún hefur ekki haft áhrif á líðan og venjur okkar Lilju. Hins vegar hefur hún gert það að verkum að við getum ekki heimsótt Jónas, tengdaföður minn, á Hrafnistu. Jafnframt höfum við passað barnabörnin oftar en venjulega vegna röskunar á skóla- og leikskólastarfi.

Ég slapp þó ekki við heilsuröskun. Fyrr í mánuðinum fann ég vaxandi verk í vinstra kinnbeini og velti fyrir mér orsökinni. Tannlæknirinn hafði nýlega tekið mynd af efri gómi í reglubundnu eftirliti og gat sagt mér að þar væri engin sýking. Ég fór því í heilsugæsluna og þar var talið líklegt að um kinnholubólgu væri að ræða sem ráða mætti bót á með 10 daga sýklalyfjakúr. Eftir nokkurra daga pilluát fór verkurinn að réna, en hvarf þó ekki alveg. Eftir að síðasta pillan hafði verið gleypt kom allt í einu í ljós að ég var allur að steypast út í rauðum flekkjum, líklega vegna sýklalyfjaofnæmis. Læknirinn taldi að líklega myndi þetta réna hratt úr því að inntöku lyfsins var lokið og því var látið nægja að ég tæki inn ofnæmislyf og færi jafnframt í sneiðmyndatöku til að skoða kinnholurnar. Þær voru hreinar og útlitið var því gott.

En flekkirnir jukust stöðugt og á fimmta degi var ég orðinn nær alrauður á kroppinn og liturinn farinn að nálgast andlitið. Þá taldi læknirinn rétt að setja mig á stera og sterkara ofnæmislyf til að stöðva þróunina. Sem betur fer skilaði þetta árangri fljótt og nú er ég orðinn nærri flekklaus maður. Ég þarf þó að fara í ofnæmispróf þegar færi gefst á Landspítalanum (gæti orðið bið á því) og ég verð að varast þessa tegund sýklalyfja héðan í frá, nema önnur skýring komi í ljós.

Röskun á ferðaáætlunum

Eftir lokun landamæra er ljóst að við Lilja förum ekki til Berlínar í marslok eins og til stóð. Við eigum flugfarseðla með Icelandair og ef þeir fást ekki endurgreiddir munum við breyta þeim, nota þá í Berlínarferð í október. Við eigum miða á tónleika Elton John – og vonandi verður hann heill heilsu þegar þar að kemur.

En þetta er ekki eina ferðalagið sem er fyrirhugað. Óvíst er hvort unnt verður að fara í hjólaferðina um eyjar við Króatíustrendur í maíbyrjun og kannski verður sumarfrí með dætrum okkar og fjölskyldum þeirra í Króatíu og á Ítalíu í júlí einnig í uppnámi. En Berlínarferð með vinum í ágúst ætti að geta staðist. Við erum löngu búin að kaupa farseðla i allar ferðirnar og bóka gistingu að mestu leyti. Það eru því verulegar fjárhæðir sem gætu tapast – en það er smámál í samanburði við mikilvægi þess að allir komist heilir undan kórónuveirunni.

50 ára kærustuparsafmæli

Við Lilja fögnuðum því í á laugardagskvöldið að 50 ár voru liðin frá því að við urðum kærustupar. Laugardaginn 14. mars 1970 hittumst við af tilviljun í Glaumbæ, töluðum saman, dönsuðum og ég fylgdi henni heim í leigubíl (en fór ekki inn). Eftir þetta urðu samskiptin tíð og hafa nú staðið í fimmtíu ár. Ég hafði reyndar boðið henni á árshátíð Morgunblaðsins 1. mars, tveimur vikum áður, en ég fylgdi þeirri samveru ekki eftir, var bæði feiminn og önnum kafinn í námi, blaðaskrifum og gerð sjónvarpsþátta. Þess vegna telst sambandið ekki hafa byrjað 1. mars.

Svona afmæli þarf að fagna með myndarbrag, en kórónuveiran og lyfjaofnæmiseinkennin sem áður voru nefnd drógu úr áhuganum á að fara út að borða. Við héldum því upp á daginn með tvennum hætti.

Fyrst var söngæfing Valskórsins frá kl. 10 til 15:30 til að læra ný lög fyrir vortónleikana. Þetta voru síðustu forvöð fyrir samkomubannið. Einungis helmingur kórsins mætti, sumir áttu ekki heimangengt, einhverjir voru í sóttkví og þeim kvefuðu var bannað að mæta. Nú er æfingum slegið á frest og ef til vill neyðumst við til fresta vortónleikunum – jafnvel til hausts. Það má líta á samveru okkar Lilju í Valskórnum (í 27 ár) sem gott dæmi um hve vel við pössum saman – að geta sungið saman í kór svo lengi.

Síðan útbjuggum við glæsikvöldverð heima í Skaftahlíð, humarhala í forrétt með freyðivíni og síðan nautalund Wellington í aðalrétt með úrvals rauðvíni. Kvöldið var ákaflega notalegt og við hamingjusöm að vonum.

Rauðvínsflaskan var sérvalin. Við höfðum átt hana í kjallaranum síðan í október 2007 þegar við keyptum hana á Spáni. Þetta var árgerð 2002 og vínið því orðið 17 og hálfs árs gamalt. Það bragðaðist afar vel. Við þekktum vínið frá því að ég fékk flösku af því í fimmtugsafmælisgjöf í desember 1999. Sú flaska var þá orðin níu ára og við drukkum hana fimm árum seinna þegar hún var orðin fjórtán ára. Samkvæmt þessu ættum við að kaupa okkur nýja flösku fljótlega og drekka hana á níræðisafmæli mínu!

Vikan 3.-9. mars

Ættfræðigrúsk í safnaðarheimili Dómkirkjunnar

Frænka mín, Laufey Böðvarsdóttir, kirkjuhaldari Dómkirkjunnar, bað mig að spjalla við eldri borgara í safnaðarheimilinu. Ég var fús til þess. Við Laufey erum tvöfaldir þremenningar, því að afar okkar voru bræður og ömmurnar systur. Eins og jafnan þegar ég flyt erindið um ættfræðigrúsk á tölvuöld fletti ég upp skyldleika mínum við prestana og umsjónarfólk safnaðarstarfsins. Þá kom í ljós að við Elínborg Sturludóttir, prestur í Dómkirkjunni, erum töluvert skyld (í fimmta og sjötta lið), nægilega mikið til að vera í sama ættartali, Laugardalsætt, sem gefið var út á bók fyrir 15 árum. Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur, er fjarskyldur (í áttunda lið).

Heimsókn í stærstu bananaplantekru norðan Alpafjalla

Kunningjahópur sem nefnist Lundabaggar fór í helgarferð til Hveragerðis, gisti á Hótel Örk og skoðaði athyglisverða staði í bænum, m.a. listasafnið og söguskiltin á ýmsum stöðum í bænum undir leiðsögn félaga okkar, Sveins Aðalsteinssonar, sem fæddist og ólst upp í Hveragerði. Sveinn var um skeið skólameistari Garðyrkjuskólans og fékk því leyfi til að sýna okkur húsakynnin, gróðurhús og fleira. Þar fékk ég öðru sinni að koma inn í gróðurhúsið þar sem eru raðir af bananapálmum. Þeir bera ávexti og því er erlendu fyrirfólki  gjarnan boðið að kíkja þar inn og smakka á ávöxtunum.

Fyrra skiptið sem ég kom þar var sumarið 1975. Þá var ég blaðamaður á Morgunblaðinu og var sendur til að fylgjast með Karli Gústaf Svíakonungi sem var í opinberri heimsókn á Íslandi. Komið var við í bananaplantekrunni í Hveragerði og kóngurinn fékk að smakka á íslensku banana. Í Morgunblaðinu birtist mynd af hópi fólks í kringum kónginn og ég sést teygja mig fram á milli manna til að heyra hvað hann segði. Mig vantaði krassandi fyrirsögn á greinina um þessa ferð og vonaðist til að kóngurinn segði eitthvað spaklegt sem unnt yrði að nota. Hann kyngdi bananabitanum og sagði svo eitt orð: „Bra“ (sem þýðir „gott“ á sænsku). Það dugði ekki í fyrirsögn.

Útsending í Þjóðleikhúsinu

Við Lilja vorum hikandi við að velja leiksýninguna Útsendingu sem eitt af áskriftarverkunum í Þjóðleikhúsinu þennan vetur, enda er verkið byggt á áratuga gamalli kvikmynd og við vorum efins um að það ætti erindi við nútímann.

Annað kom í ljós. Þótt sviðsetningin sé trú áttunda áratugnum að mestu á boðskapurinn jafnvel enn betur við nú en þá. Hvarvetna verður vart falsfrétta og forgangs gróðahyggjunnar umfram sannleika og jákvæðra gilda fyrir samfélagið.

Pálmi Gestsson var frábær í verkinu og margt í sviðsetningunni var nýstárlegt og skemmtilegt, til dæmis notkun sjónvarpstækninnar.

Vikan 25. febrúar – 2. mars

Raggi Bjarna látinn

Enn vakna minningar við lát þjóðkunns tónlistarmanns. Ég sá og heyrði Ragga Bjarna oft gegnum tíðina og fannst hann nær alltaf skemmtilegur. Það eina sem er undanskilið er þegar hann söng gömul erlend lög sem ég fann enga tengingu við. Ég kunni alltaf að meta íslensku lögin, enda var textaflutningur hans afar góður og mér fannst oftast að hann væri að segja MÉR söguna sem lagið fjallaði um.

Tvær minningar standa upp úr:

Í lokin á dansleik hljómsveitar Svavars Gests á Lækjartorgi á 17. júní á fyrstu unglingsárum mínum (ég man ekki hvaða ár, hef líklega verið 13 eða 14 ára) söng hann lag föður síns, „Við bjóðum góða nótt“, og síðan sungu allir „Ísland ögrum skorið“. Það var ekki flutningur Ragga sem er mér minnisstæður, heldur sú tilfinning sem þarna hríslaðist um mig, að ég væri orðinn stór (kannski ekki alveg fullorðinn), að ég ætti heima þarna með fullorðna fólkinu. En ég tengi þessa upplifun alltaf við Ragga Bjarna.

Fyrir nokkrum árum heimsótti Raggi mig í Skaftahlíðina og fór yfir myndir af sér og hljómsveitum sínum sem ég hafði valið úr myndasafni Kristins heitins Benediktssonar til birtingar í bókinni „Öll mín bestu ár“. Hann fór yfir nöfn hljóðfæraleikaranna og annarra skemmtikrafta og sagði mér um leið sögur af þeim og viðburðunum. Hann hafði gaman af þessu og var sjálfur einkar skemmtilegur í samræðunni, eins og alþjóð þekkir úr fjölmiðlum.

Erfðir eða umhverfi

Ég er byrjaður að hljóðrita viðtöl fyrir verðandi útvarpsþætti „Hver er ég – og hvers vegna?“ sem verða á dagskrá Rásar 1 um páskana. Það er skemmtilegt að hitta fagfólk í ólíkum greinum sem varpar ljósi á samspil erfða og umhverfis (uppeldis, aðstæðna, aðbúnaðar) og áhrif á persónuleika og skapgerð. Þrautin verður þyngri að klippa viðtölin, stytta þau og velja bara allra bestu bútana til flutnings, því að viðmælendur hafa allir svo margt að segja og nær allt er það áhugavert.

RÚV bauð mér á hálfs dags námskeið fyrir þáttagerðarfólk þar sem farið var yfir fjölmargt gagnlegt varðandi upptöku- og viðtalstækni, efnistök og víti til að varast. Hljóðvarp er áhugaverður miðill því að þar er með ýmsum hætti unnt að færa hlustandann inn í hugar- og hljóðheim sem fangar athygli hans – en vandinn er að halda athyglinni. Það er ekki auðvelt verk að halda hlustandanum við útvarpstækið (tölvuna, símann) í tæpa klukkustund eins og ég ætla að reyna að gera, ekki einu sinni, heldur þrisvar um páskana.

Stórafmæli sambands okkar Lilju

Lilja brá sér til Kaupmannahafnar til að heimsækja Ástu Björgu, Berg Má og synina Óliver og Benjamín, en þó sérstaklega hvolpinn Rúfus sem gekk í fjölskylduna fyrir tveimur mánuðum. Hún valdi að fara daginn fyrir 69 ára afmælið sitt, en ég átti ekki heimangengt og gat því einungis fagnað afmælinu símleiðis með henni.

Annað afmæli bar upp á sömu helgi. Sunnudaginn 1. mars voru nákvæmlega 50 ár frá því að ég bauð henni út í fyrsta sinn, einnig á sunnudegi. Tilefnið var árshátíð Morgunblaðsins þar sem við unnum bæði í hlutastörfum, ég skrifaði poppþætti og hún leysti af á símanum á ritstjórninni á kvöldin. Um tildrögin að því að ég bauð henni á árshátíðina má m.a. lesa á vefsíðunni Lifðu núna:

https://lifdununa.is/grein/feimni-bladamadurinn-og-stelpan-a-simanum/

Lilja var stórglæsileg þegar ég sótti hana til að fara á árshátíðina, en þrátt fyrir skemmtilegt kvöld bar ég mig ekki eftir því að efla kynni við hana. Annaðhvort var ég of feiminn eða – sem er mun líklegra – svo niðursokkinn í önnur viðfangsefni um þær mundir (gerð sjónvarpsþátta, skrif í Moggann, nýhafið nám í þjóðfélagsfræðum) að ég gerði ekki meira í málunum.

Sem betur fer rakst ég á hana tveimur vikum seinna í Glaumbæ. Við tókum tal saman, dönsuðum og ég fylgdi henni heim í leigubíl (en fór ekki inn). Eftir það fórum við að hittast oftar og urðum með tímanum par og síðan hjón. Það er því laugardagurinn 14. mars sem er eiginlegur stofndagur hálfrar aldar langs sambands okkar og þá munum við örugglega gera okkur glaðan dag. Enda var enginn möguleiki á því sunnudaginn 1. mars – hún í Kaupmannahöfn, ég í Reykjavík.

Vikan 18.-24. febrúar

Kortaupplýsingum stolið

Einn góðan eftirmiðdag birtust skyndilega skilaboð í farsímanum frá VISA um staðfestingarkóða sem ég ætti að slá inn til að staðfesta 500 evra greiðslu til aðila sem ég kannaðist ekkert við – enda hafði ég ekki verið að reyna að greiða neitt á netinu og alls ekki þessa háu fjárhæð, nærri 70 þúsund krónur. Ég hringdi í Valitor og niðurstaðan varð sú að loka yrði kortinu fyrst ókunnur aðili væri farinn að reyna að nota kortanúmerið.

Mér fannst líklegast að nú væru óprúttnir aðilar búnir að brjótast inn í farsímann minn sem stolið var í Póllandi í nóvember. Þar voru kortaupplýsingarnar í greiðsluappi.

Nýtt kort barst í pósti nokkrum dögum síðar og ég er búinn að uppfæra upplýsingar hjá nærri 20 aðilum vegna fastra greiðslna og í þægindaöppum, s.s. leggja.is. Ég er orðinn nokkuð æfður í þessu, enda varð ég að fá nýtt kort í fyrra vegna þess að VISA í Evrópu óttaðist að búið væri að stela runu kortanúmera, þar á meðal mínu.

Gott sjónvarpsefni

Við Lilja horfum minna á sjónvarp en flestir sem við þekkjum, höfum svo mikið að gera í öðrum áhugamálum. Þess vegna tregðaðist ég við að gerast áskrifandi að Netflix, en lét undan þegar við fórum til Berlínar í janúar og tók ókeypis 30 daga reynsluáskrift. Þar horfðum við á nokkra þætti af The Crown, leikinni ævisögu Elísabetar 2. Englandsdrottningar, og vorum stórhrifin. Þess vegna var ég mjög sáttur við að framlengja áskriftina og greiða fyrir, enda þótt engu meiri tími sé til sjónvarpsáhorfs en áður var. Við höfum þó náð að sjá einn og einn þátt af og til og erum langt komin í annarri þáttaröðinni – og eigum þó meira en helmingi fleiri þætti eftir.

Netflix býður auðvitað gríðarlegt úrval af kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Við ákváðum því á föstudagskvöldi að horfa á rómantíska gamanmynd úr Hollywood-smiðjunum með þekktum leikurum til að slaka á. Þegar henni var lokið fundum við að þetta var heldur þunn súpa. Því fengum við okkur einn þátt af drottningarsögunni í ábæti og leið miklu betur á eftir. Gæðin eru allt önnur og meiri. Við verðum líklega vandfýsin á annað efni Netflix.

Siggi Árna látinn

Fregnin um lát Sigurðar Árnasonar, bassaleikara Náttúru, vakti margar minningar frá ferli mínum í tónlistarlífinu. Þegar ég var nýbyrjaður að leika á bassagítar í skólahljómsveit veturinn 1964-1965 sá ég hljómsveitina Strengi leika á skólaballi í Gagnfræðaskólanum við Vomarstræti þar sem ég var í landsprófsbekk. Ég gaf því bassaleikaranum meiri gaum en öðrum og fannst hann mjög fær. Þetta var Siggi. Aðrir í hljómsveitinni voru Arnar Sigurbjörnsson (seinna í Flowers og Brimkló), Jón Garðar Elísson (seinna í Haukum) og Reynir Harðarson (seinna í Óðmönnum). Skömmu síðar hættu Strengir og liðsmennirnir fóru í aðrar hljómsveitir.

Sumarið 1965 rataði ég í nýja hljómsveit með sumum þeirra sem ég hafði leikið með um veturinn. Við fengum umboðsmann, Þráin Kristjánsson, og hann bókaði okkur á ýmsa  staði. Við vorum ekki búnir að finna nafn á hljómsveitina og Þráinn auglýsti okkur því bara sem Strengi, sagðist eiga nafnið og hafa fundið það upp á fyrri hljómsveitina. Okkur leið ekki vel með þetta, fannst við vera að sigla undir fölsku flaggi, en fundum ekki annað skárra. Eftir að við höfðum spilað tvær helgar í Glaumbæ undir þessu nafni varð ekki aftur snúið og Strengir hétum við þar til hljómsveitin hætti í árslok 1966. Ég var alltaf með dálítið samviskubit út af þessu, en eftir að hljómsveitin var hætt þurfti ég svo sem ekkert að vera að afsaka þetta við neinn.

Ég kynntist Sigga eftir að hann fór að leika í Náttúru. Ég átti þá ýmis samskipti við hljómsveitina þegar ég skrifaði um popptónlist í Morgunblaðið, sá um sjónvarps- og útvarpsþætti og var plötusnúður í Tónabæ. Seinna varð hann hljóðmeistari í stúdíói S.G. hljómplatna og tók upp fjölda hljómplatna sem Svavar Gests og fleiri gáfu út. Ég talaði þá oft við hann, leitaði frétta og skrifaði þær.

Síðan steig ég út úr tónlistarlífinu og áratugir liðu þar til við áttum samtal á nýjan leik. Það var í ágúst í fyrra. Þá leitaði hann til mín til að fá afrit af myndum sem Kristinn heitinn Benediktsson hafði tekið af Náttúru forðum daga og sumar höfðu birst í bókinni Öll mín bestu ár. Siggi kom heim til mín í Skaftahlíð og við áttum gott samtal í um klukkustund um myndirnar og liðna tíma. Þá notaði ég tækifærið og sagði honum frá samviskubitinu vegna „stolna“ Strengja-nafnsins. Hann sagði að sér hefði alla tíð verið alveg sama um þetta, líklega væri það rétt að Þráinn hefði átt nafnið. Mér var létt.

Siggi sagði mér þá frá veikindum sínum og að hann hefði leitast við að njóta sumarblíðunnar (2019) til fullnustu, því að hann hefði legið á spítala nær allt sumarið 2018 vegna uppskurða og erfiðleika sem fylgdu og saknað sólarinnar. Hann kom því gangandi heim til mín og gekk aftur til síns heima á Skólavörðustíg að samtali okkar loknu. Þetta var sólríkur og fallegur dagur, eins og þeir gerast bestir í Reykjavík. Þarna sá ég hann síðast, þegar hann gekk út í sólina, og mér finnst gott að hugsa til hans þannig.

Vikan 11.-17. febrúar

Ættfræðigrúsk í Bústaðakirkju

Ég hef að undanförnu boðist til að halda fyrirlesturinn „Ættfræðigrúsk á tölvuöld“ í félagsstarfi eldri borgara í safnaðarheimilum kirkna í Reykjavík. Í haust talaði ég í Neskirkju og nú var röðin komin að Bústaðakirkju, en framundan eru heimsóknir til eldri borgara í Dómkirkju og Háteigskirkju. Þetta er tilkomið eftir að ég fór sjálfur að hlýða á kynningu Odds Helgasonar ættfræðings í Neskirkju fyrir ári síðan og sá þá og heyrði að eldri borgarar hafa gaman af þessu efni.

Ég hef einnig flutt fyrirlesturinn í tveimur Rotary-klúbbum við góðar undirtektir.

Í Bústaðakirkju hafði ég gaman af að benda á tengsl mín við sóknina, því að þar bjó Lilja þegar ég kynntist henni og þar bjuggu tengdaforeldrar mínir, Jónas og Guðrún, í alls um hálfa öld.

Ég  fletti gjarnan upp tengslum í Íslendingabók áður en ég flyt fyrirlesturinn. Í ljós kom að við séra Pálmi Matthíasson, sóknarprestur í Bústaðakirkju, erum fimmmenningar, tengjumst gegnum konu í Fjörðum nyrðra. Synir hennar, hálfbræður, sem hún átti með fyrri og seinni eiginmanni eru langalangafar okkar Pálma. Enda kom í ljós að við erum með líkan smekk á föt og gleraugnaumgjarðir.

Er ég móðir mín?

Í aðdraganda og eftir fráfall Guðrúnar tengdamóður minnar er Lilju hugleikið sambandið við móður sína og veltir fyrir sér hvað þær eigi sameiginlegt. Þess vegna vildi Lilja velja nýtt, íslenskt leikrit, Er ég móðir mín?, sem einn kostinn í áskriftarkortinu í Borgarleikhúsinu.

Við skemmtum okkur mjög vel og ég er viss um að þetta leikrit á eftir að spyrjast vel út og ganga mjög lengi. Þarna eru dregnar upp myndir af fjölskyldulífi fyrir 40-50 árum og núna og ég kannaðist við flest það sem þar var sýnt.

Kristbjörg Kjeld á stjörnuleik enn einu sinni, en aðrir leikarar standa sig einnig mjög vel.

Lilja getur vafalaust heimfært ýmislegt í sýningunni upp á sig og mömmu sína. Reyndar get ég líka lært ýmislegt af verkinu, þótt staða konunnar hafi verið kjarninn en karlarnir haft minna vægi.

Óveður

Ekki olli föstudagsfárviðrið okkur Lilju neinum vandræðum, enda er skjólgott hér í Hlíðunum eftir að trén í nálægum görðum hækkuðu upp fyrir húsþök. En ítrekuð hvassviðri vetrarins hafa vakið upp gamlan draug sem baular gjarnan á kvöldin og nóttunni. Annaðhvort er los á þakrennunni eða niðurfallsstammanum, því að þegar hvessir fer að heyrast hálfgert baul og marr í horninu við svefnherbergið okkar Lilju. Þetta byrjaði í fyrravetur og þegar voraði fór ég upp á þak og festi þetta með sterku límbandi. Þá varð þögn um margra mánaða skeið, kannski bara vegna þess að lygnara er á sumrin. En nú er þetta byrjað aftur, stöðugur næðingur og öflugar hviður hafa líklega losað um límbandið. Ég er ófús að fara upp á þak meðan vindur blæs og hált er á bárujárninu, en þegar færi gefst reyni ég að laga þetta til bráðabirgða. Í sumar verður að endurnýja niðurfallsrörið og kannski rennuna.

Messusöngur

Valskórinn fær afnot af Háteigskirkju fyrir árlega vortónleika gegn því að annast messusöng í einni sunnudagsmessu yfir veturinn. Nú var sungið á Biblíudeginum, sunnudaginn 16. febrúar. Kórinn er orðinn ágætur í messusvörum, fljótur að læra nýja sálma og að sjálfsögðu mjög öruggur í flutningi á einu af uppáhaldsverkunum, sálmi Báru Grímsdóttur kórstjóra og Gerðar Kristnýjar skálds, sem nefnist Verndarvængur og er í sálmabók Þjóðkirkjunnar.

Það er alltaf notalegt að syngja í messunum og ég geng yfirleitt til altaris í leiðinni. Þetta er auðvitað sóknarkirkjan mín og ég hef því ánægju af að leggja henni lið. En það er hálfdapurlegt þegar messusóknin er svo lítil að kórinn er fjölmennari en allir aðrir kirkjugestir til samans.

Vikan 5.-11. febrúar

Mýró-ballið

Hápunktur vikunnar var tvímælalaust dansleikur með meiru í Félagsheimili Seltjarnarness laugardagskvöldið 8. febrúar. Þar hittust tíu árgangar gamalla nemenda úr Mýrarhúsaskóla, fólk fætt á árunum 1948 til 1957, og raunar komu einnig nokkrir eldri og yngri nemendur. Þarna voru nærri 200 manns og húsið í rauninni pakkað. Myndir úr skólalífinu og af húsum og landslagi á Nesinu fyrir meira en hálfri öld voru á veggjum og á sýningartjaldi. Nokkrir nemendur rifjuðu upp minnisstæð atvik úr skólanum og lýstu lífinu á Nesinu forðum. Og svo var sungið og dansað af miklum krafti við undirleik hljómsveit sem nefndist Bítilbræður og Magnea. Í henni voru kunnugleg andlit af Nesinu og úr þjóðlífinu. Svo fékk veislustjórinn töluvert hrós (ég sjálfur).

Það var einkar skemmtilegt að hitta gömul skólasystkini, jafnt þau sem voru í mínum bekk og hin sem voru 1-2 árum eldri eða yngri. Í litlu samfélagi og fámennum skóla þekkti maður fleiri árganga nemenda en líklega gerðist í Reykjavík. Vegna fámennis léku fleiri árgangar sér saman í hverfinu og oft þekkti maður yngri systkinin líka í sjón. Mér gekk ágætlega að þekkja fólk aftur í sjón, þurfti þó stundum að spyrja, en mér gekk mun verr að þekkja yngri systkinin. Þau voru sennilega enn með barnsandlit þegar ég hætti í skólanum og nú voru þau komin með fullorðinsandlit sem voru mér ókunnug.

Ég hafði á orði við Lilju á heimleið af ballinu að nú væri ég búinn að ná ákveðinni „lokun“ á æskuminningarnar af Nesinu. Ekki á þann veg að ég vilji loka á frekari samskipti, enda vil ég gjarnan eiga þau sem mest og hlakka til frekari viðburða af þessu tagi. Nei, það var frekar sú tilfinning að ef ekki yrði aftur efnt til endurfunda af þessu tagi þá væri ég samt sáttur við að hafa náð að loka hringnum, ef svo má segja. Ég gæti þá sagt og verið glaður í sálinni: Ég náði að tengjast og fagna gömlum vinum og samferðafólki – og kveðja, ef það verður raunin.

Það sama má einnig segja um 50 ára stúdentsafmælið í MR í maí 2019. Þar hitti ég aftur um helming árgangsins og það verður örugglega í síðasta skiptið sem mæting verður svo góð. Þetta var stórafmæli og því lögðu margir áherslu á að mæta. Héðan í frá verða þetta líklega rólegri og fámennari eldriborgarasamkomur.

Leikhús: Ólíkar myndir af veruleikanum

Við Lilja sáum tvær leiksýningar í vikunni, aðra á föstudegi, hina á sunnudegi (og ballið góða var á laugardegi). Ég var mjög ánægður með þær báðar, en Lilja bara með þá seinni.

Fyrst var það Engillinn, samsett úr fjölmörgum stuttum og einu lengra atriði úr afar fjölbreyttum ritverkum Þorvaldar heitins Þorsteinssonar, myndlistarmanns og rithöfundar. Hann samdi bæði útvarps- og sviðsleikrit og margar bækur og því var úr miklu að moða. Ég var svo heppinn að sitja fjögurra kvölda námskeið hans um skapandi skrif og þekkti því nokkuð til hugsunarháttar hans. Þorvaldur valdi gjarnan að setja venjuleg samskipti og samtöl fram með það ýktum hætti að það var dálítið vandræðalegt að horfa á og hlæja að öllu saman. Fólk sem þannig kæmi fram í daglegu lífi yrði að athlægi og jafnvel rekið í meðferð til að hætta slíkri framkomu. Lilju fannst þetta ekki sniðugt.

Í hléi var hjólavagni með tertum og öðru kaffibrauði rennt inn á gólfið framan við sviðið og þar seldu þrjár konur úr Kvenfélagi Langholtskirkju leikhúsgestum varninginn. Þetta var skírskotun í uppátæki Þorvaldar í tengslum við listviðburð fyrr á árum. Við Lilja keyptum gulrótarköku og höfðum hana sem eftirrétt í matarboði kvöldið eftir. Allt bakkelsið seldist og fengu færri en vildu.

Síðan var það Vanja frændi eftir Tsjekhov. Mjög flott sýning að útliti, innihaldi og flutningi. Líklega besta sýning á heildina litið sem ég hef séð í vetur. Ég hef verið sólginn í að sjá gömul rússnesk leikverk og þetta stóð sannarlega undir væntingum. Það er eitthvað við andrúmsloftið í Rússlandi á nítjándu öld sem heillar mig, eins og það birtist í verkum Tsjekhovs og annarra leikritaskálda: Vonleysið eða tilgangsleysið sem jafnt aðalsfólkið, undirokað verkafólk og leigulíðar glímdu við, gjarnan í þrúgandi sumarhita, en undir niðri kraumaði og upp úr sauð þegar á leikritin leið.

Í þessari sýningu var veruleikinn ekki ýktur, þetta hefði svo sannarlega geta gerst. En vafalaust hefðu persónurnar hegðað sér öðru vísi í nútímanum og ekki látið bjóða sér það sem fólk á fyrri tímum lét yfir sig ganga. Það á reyndar við um mörg gömul meistaraverk sem sett eru á svið. Þau eru áhugaverð, skemmtileg, en oft er erfitt að  sætta sig við bælinguna sem var svo algeng fyrr á öldum. Af vel skrifuðum ritverkum fyrri tíma er þó hægt að draga margvíslegan lærdóm um mannleg samskipti sem gagnast líka í nútímanum. Þess vegna vel ég þau gjarnan þegar áskriftarkortin eru keypt. Ég tek næstum alltaf gamalt, alvöruþrungið meistarastykki fram yfir nýtt gamanleikrit. Ég vil frekar koma þögull og hugsi út úr leikhúsinu en hlæjandi að stundargamni.

Vikan 29. janúar – 4. febrúar

Skemmtanir og menning

Fyrstu mánuðir ársins eru yfirleitt þéttskipaðir menningarviðburðum og skemmtunum af ýmsu tagi. Við kaupum jafnan áskriftarkort í báðum stóru leikhúsunum og oftast lendir meirihluti sýninganna á þessa mánuði. Síðan eru árshátíðir, þorrablót og alls kyns hittingar, oft margar helgar í röð, fyrir utan æfingar með kórum og tilfallandi listviðburði.

Í vikunni sá ég stórskemmtilega franska kvikmynd, Fagra veröld, í Bíói Paradís, horfði öðru sinni á leikritið Kæru Jelenu, nú í Borgarleikhúsinu (áður í Þjóðleikhúsinu fyrir tæpum 30 árum), fór á systrakvöld (eins konar árshátíð) í Frímúrarahúsinu, mætti á tvær kóræfingar, söng einsöng og í septett á frímúrarafundi (og borðaði þorramat á eftir). Fann samt tíma til að sinna umsömdum verkefnum og mæta á stjórnarfund – og fór einnig í jarðarför og erfidrykkju og horfði á tvö barnabörn keppa í körfuboltamótum. Það ku víst taka við rólegheitalíf þegar maður er orðinn sjötugur, en ég má ekki vera að því enn um sinn.

Fram undan á næstu tveimur vikum eru þrjár leiksýningar, endurfundaball með gömlum nemendum Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi, tveir aðalfundir, fyrirlestur fyrir eldri borgara, matarboð með vinkonum Lilju, samverukvöld í hjónaklúbbi. meiri einsöngur hjá frímúrurum og auðvitað kóræfingar. Ég þarf að vera í góðu formi til að sinna þessu öllu, enda fer ég í karlaleikfimi tvo morgna í viku og geri æfingar heima við hina dagana.

Skáldskapargyðjan vanrækt

Ég fékk boð um að koma á smásagnanámskeið í Borgarbókasafninu undir leiðsögn Sunnu Dísar Másdóttur, sem framhald af örsagna- og ljóðanámskeiðinu sem ég sótti í haust. Ég varð að afþakka, því að ég hef hreinlega of mikið að gera um þessar mundir til að geta lagst í skáldlegar skriftir og verð auk þess farinn aftur til útlanda áður en námskeiðinu lýkur. Samt vil ég setja á mig pressu til að halda áfram að skrifa og halda mér í formi í þeim efnum því að ég hef ákveðið að auka vægi ritstarfa þegar annir minnka á öðrum vígstöðvum. Það er svo margt sem mig langar að spreyta mig á – þegar tími leyfir. Og þá spyrja kannski sumir: Af hverju dregurðu þá ekki strax úr öllum hinum verkefnunum? Og þá svara ég: Það er í athugun, ég er að vinna í mínum málum. Hljómar eins og ég gæti verið stjórnmálamaður, lofa öllu fögru en læt reka á reiðanum.

Flugvitund og kolefnisjöfnun

Við Lilja settumst við sjónvarpið í fyrrakvöld og horfðum á sjónvarpsþátt RÚV – Borgarafund um loftslagsmál – frá í nóvember. Við erum svo langt á eftir í sjónvarpsáhorfi að það er sjaldnast dagskrá dagsins sem fangar athygli okkar heldur hvað margir dagar séu eftir af aðgengi gamals efnis á skjánum.

Í þættinum kom fram ábending um að ekki ætti að nota orð eins og flugskömm eða flugviskubit til að vekja sektarkennd vegna ferðalaga. Betra orð væri flugvitund (Það er vissulega jákvæðara).

Í framhaldi af þættinum leituðu á mig tvær hugsanir: Hvað þurfum við að kolefnisjafna mikinn útblástur frá nýliðnu ári og hvaða nýyrði er unnt að mynda sem hljóma líkt og kolefnisjöfnun en hafa aðra merkingu.

Fyrra svarið er að flugferðir okkar Lilju á árinu 2019 (samkvæmt reiknivél Alþjóða flugmálastofnunarinnar) og akstur tveggja bíla (miðað við kílómetratalningu í árlegri bílaskoðun) virðast hafa búið til rúm 8 tonn af koltvísýringi (CO2). Þessi tonn er unnt að jafna með greiðslu 16-17 þúsund króna í Votlendissjóð. Við Lilja ákváðum að tvöfalda þá upphæð og greiða 35 þúsund í sjóðinn, annars vegar sem syndaaflausn og hins vegar sem framlag til aukinnar sóknar í kolefnismálum. Ekki veitir af, því að útlit er fyrir að við fljúgum og keyrum meira á þessu ári en því síðasta – en svo förum við að hægja á okkur (bjartsýnn!).

Síðara svarið varð til á kóræfingu Valskórsins á meðan verið var að fara yfir raddir annarra kórfélaga og við tenórarnir biðum átekta:

                Bolefnisjöfnun = megrun

                Volefnisjöfnun = huggun

Vikan 22.-28. janúar 2020

Áhættu-skoðunarferð

Á Sal-eyjunni eru skoðunarferðir aðallega í boði í pallbílum þar sem fjórir farþegar sitja inni með ökumanni en aðrir fjórir til sex sitja á bekkjum á pallinum og halda sér bara í það sem þeir geta, án nokkurra öryggisbelta. Síðan er ekið á malbikuðum þjóðvegum á töluverðum hraða, einnig á malarvegum og troðningum, og fólkið á pallinum rígheldur sér til að verjast mögulegri ógæfu, en heitur vindurinn veldur þurrki í öllum vitum. Við Lilja sátum á pallinum ásamt nýgiftu pari frá Nígeríu í brúðkauspferð.

Sumt sem heimamenn eru stoltir af að sýna okkur er nokkuð kunnuglegt fyrir okkur sem einnig ólumst upp á eldfjallaeyju og þekkjum fjölbreyttar hraunmyndanir og klettóttar strendur. Annað er framandi:

Í eyðimörkinni er okkur sýnt „stöðuvatn“ í fjarska sem er bara hillingar á heitu landsvæði.

Í gíg óvirks eldfjalls er stöðuvatn með jarðsjó sem seitlar inn gegnum hraunlögin því að botn gígsins er neðan sjávarmáls. Þar fljóta gestir án þess að synda því að vatnið er helmingi saltara en venjulegur sjór. Dálítið fyndið er að horfa á ósyndan Nígeríumann sem glímir við vatnshræðsluna og þorir eiginlega ekki að láta sig fljóta í 60-70 sentimetra djúpu vatni.

Í grunnsævinu um 50 metra frá landi synda 40-50 sentimetra langir hákarlar (ungviði) innan um ferðafólkið sem stendur i vatni upp að hnjám, en 70-80 metrum utar og á meira dýpi synda tveggja metra hákarlar og myndu vafalaust þiggja okkur sem málsverð ef við væðum þangað út

Fimm landa sýn

Erfitt er að komast samdægurs til Íslands frá Grænhöfðaeyjum. Við völdum því að gista eina nótt í Lissabon og nutum þar góðra veitinga og gistingar. Daginn eftir skyldi flogið til Edinborgar með Easyjet og áfram skömmu síðar til Keflavíkur. Við brottför frá Lissabon barst okkur tilkynning um að vegna yfirvofandi óveðurs á Íslandi yrðum við að gista eina nótt í Edinborg (á kostnað Easyjet) og fljúga síðan heim morguninn eftir. Öðru sinni i ferðinni fengum við því ókeypis gistingu, kvöldmat og morgunmat í heimsborg án þess að hafa stefnt að því. Við gistum því í fimm löndum í ferðinni: Þýskalandi, Ítalíu, Grænhöfðaeyjum, Portúgal og Skotlandi.

Kvöldmaturinn á flugvallarhótelinu í Edinborg í boði Easyjet var betri en hjá Alitalia í Róm, en samt af ódýra taginu. Að honum loknum tókum við strætó í miðbæinn og röltum á milli kránna til að smakka skoskan bjór og viskí og hlýða á kráartónlist. Notalegt kvöld með óvæntum og ánægjulegum uppákomum.

Á Íslandi tók við kaldur veruleiki. Flugvélin ók hægt í átt að flugstöðinni vegna hálku á brautunum og rútan ók hægt til Reykjavikur. Skyggni var lélegt og ég get ímyndað mér að erlenda ferðafólkið hafi hugleitt hvort Íslandsferð að vetri hafi verið óskynsamleg ákvörðun.

Útvarpsþættir í bígerð

Á hugmyndadögum RÚV í október kynnti ég tillögu að útvarpsþáttum um áhrif erfða og umhverfis á persónuleika fólks, hugmynd sem vaknaði í tengslum við kennslu mína í ættfræðigrúski. RÚV sagðist vilja fá þessa þætti á dagskrá einhvern tímann á árinu 2020. Dagskrárstjóri Rásar 1 hjá RÚV sendi mér tölvupóst í vikunni og lýsti áhuga á að setja þættina á dagskrá um komandi páska. Ég var til í það og hófst strax handa við að gera drög að handriti fyrir nokkra þætti. Fram undan er snörp vinnulota við að góma viðmælendur og fara síðan í upptökur, klippingar, gerð kynninga og skýringa og samsetningu.

Ég hef áður unnið fyrir RÚV, sá um sjónvarpsþættina „Í góðu tómi“ veturinn 1969-1970 og nokkru síðar um útvarpsþætti um popptónlist í samstarfi við Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, skólasystur mína úr MR. Ég hlakka til að koma aftur að slíkri vinnu, hálfri öld síðar og töluverðri reynslu ríkari.

Vikan 15.-21. janúar 2020

Samferðafólk og fordómar

Það fyrsta sem mér datt í hug þegar við Lilja komum í kvöldmatinn á hótelinu í gær var: Mikið hljóta svertingjarnir að vera glaðir að fá frítt að borða. Þarna voru farþegar flugfélagsins Cabo Verde Airlines, strandaglópar í Róm eins og við, í bland hvítir, ljós- eða dökkbrúnir eða svartir. Fyrrgreind hugsun mín er gott dæmi um rótgróna fordóma gagnvart svörtu fólki: Þar til annað kemur í ljós álít ég að allir svartir séu fátækir. Ég veit reyndar betur eftir nokkurra ára búsetu í Bandaríkjunum, en samt var fyrsta hugsun mín að fólk frá Afríku hlyti að vera fátækt. Ég viðurkenndi þessa fordóma við Lilju og hún svaraði: Sástu ekki að allir voru með dýra farsíma. Þetta var sterk röksemd.

Rölt í Rómaborg

Við Lilja skutumst með hótelrútunni niður í miðborg Rómar um morguninn og vorum komin aftur í tæka tíð fyrir brottför út á flugvöll skömmu eftir hádegi. Í ferð til Rómar fyrir rúmum áratug höfðum við skoðað alla helstu sögu- og ferðamannastaðina og því var tveggja tíma röltið notað til að fara á kaffihús og útimarkað og slappa af í sólinni. Þarna sáum við meira af hversdagslífi Rómarbúa en áður, þótt ferðamenn hafi vissulega verið á rölti hvert sem litið var. Þetta var notaleg morgunstund en ekki nógu löng til að komast almennilega í samband við borgina. Kínverskt spakmæli er einhvern veginn á þá leið að maður eigi aldrei að ferðast hraðar en sálin ræður við. Það kom berlega í ljós í þessari stuttu heimsókn. Sálin var bara ekki komin á staðinn þegar við þurftum að þjóta af stað á nýjan leik. Eitt lærðum við þó:  Cafe corretto (kórrétt kaffi) er espresso með smáslurk af líkjör, gjarnan grappa, út í. Gott fyrir Lilju sem drekkur yfirleitt einn kaffibolla á dag, snemma dags, en hvað heitir þá teið sem ég á að biðja um?

Ferðalag til fortíðar og út fyrir þægindarammann

Í flugvél Cabo Verde Airlines var borinn fram matur í pappaöskjum sem minnti á flugvélamatinn sem tíðkaðist á Íslandi fyrir nokkrum áratugum. Fríir drykkir fylgdu. Að öðru leyti var engin veitingaþjónusta eða sala um borð í sex tíma flugi. Við komuna til eyjanna þurfti að fá vegabréfsáritun og greiða fyrir hana rúmar fjögur þúsund krónur á mann. Síðan tók við ferð í leigubíl sem var að hruni kominn á ósléttum vegum. Í hótelíbúðinni vorum við vöruð við að drekka kranavatnið – munið að þið eruð í Afríku, stóð í leiðbeiningunum. Allt minnti þetta á gamla tíma og ástand sem við áttum alls ekki von á að upplifa að nýju.

Sem betur fer var vistin á Grænhöfðaeyjum miklu betri en upphafskynnin bentu til. Gistingin og aðstaðan var fín, veitingastaðirnir góðir, heimamenn vinsamlegir, verðlag ágætt, hitastigið fínt, sjórinn hlýr og hreinn. Vissulega sáust þess víða merki að tæknin er ekki komin jafnlangt og á Íslandi, fleira er gert með handafli en við myndum gera og fleira starfsfólk virðist koma við sögu á hverjum vinnustað en okkur þykir skynsamlegt. En allt er þetta á uppleið, hraður vöxtur ferðaþjónustu gerir samfélaginu þar kleift að skapa fjölda nýrra starfa og opna íbúunum möguleika í launavinnu sem áður voru fáséðir.

Við fórum til Grænhöfðaeyja til að vera örugg með sól, hita og hlýjan sjó og til að sjá forvitnilegt mannlíf þar sem ekki væri allt yfirfullt af ferðafólki. Þetta gekk allt eftir. Hitinn var í kringum 25 gráður alla dagana. Við vorum á eynni Sal sem er um 220 ferkílómetrar að stærð (30 km á lengd og mesta breidd um 10 km). Þarna sáust miklar andstæður í samfélaginu. Mikill uppgangur í ferðaþjónustu er í bænum Santa Maria og mikil fjölgun íbúa sem flust hafa frá hinum eyjunum í klasanum. Önnur þorp og bærinn Espargos (þar sem stjórnsýsla eyjarinnar er) bera merki um þrengri kost, atvinnuleysi og fátækrahverfi. Landbúnaður er enginn vegna þurrka. Ekki hefur rignt neitt að ráði í sjö ár og stór landsvæði eru hreinlega eyðimörk. Heimamenn eru vinsamlegir og enn er yfirbragðið allt heimilislegt eða sveitó, ólíkt ýmsum ferðamannastöðum við Miðjarðarhaf eða á Kanaríeyjum.

Vikan 8.-14. janúar

Eldgos gleður

Það er kannski ekki við hæfi að gleðjast þegar greint er frá því að gos sé hafið í frægu eldfjalli. En ég játa það samt. Í einni af mörgum bókum Enid Blyton sem ég las sem barn, líklega Dularfulla kattarhvarfinu, var kynntur til sögunnar drengur sem var svo fróður að hann gat sagt hinum söguhetjunum hvert væri næsthæsta eldfjall Mexíkó. Þau sannfærðust strax um að hann vissi ákaflega mikið, en í bókarlok viðurkenndi hann að hann hefði bara lagt þetta fjallsheiti á minnið til að sýnast gáfaðri. Ég lagði auðvitað heitið á minnið og rifja þetta oft upp. Og nú er fjallið enn einu sinni byrjað að gjósa. Popocatepetl. Ég gleðst, en skömmustulega.

Vilhjálmur Einarsson látinn

Ég var rétt að byrja að taka eftir fréttum þegar Vilhjálmur náði silfrinu á OL í Melbourne 1956. Ég varð sjö ára nokkrum vikum síðar. Hann varð strax ein af æskuhetjunum mínum og lengi hélt ég að hann hlyti að vera náskyldur mér þar sem hann var að austan eins og pabbi. Ég montaði mig jafnvel af því. Seinna kom í ljós að hann er eins fjarskyldur mér og flestir aðrir Íslendingar. Það er í góðu lagi. Ég hitti hann nokkrum sinnum þegar ég var formaður Frjálsíþróttadeildar ÍR og síðan Frjálsiþróttasambands Íslands. Það var ánægjulegt. Hann er auðvitað einn mesti afreksmaður íslenskra frjálsíþrótta og í mínum huga kemst einungis Jón Arnar Magnússon upp að hlið hans. Jón Arnar átti lengri feril í fremstu röð í mjög erfiðri grein en vann þó aldrei jafn stór verðlaun og Vilhjálmur.

Ballett á brúðkaupsafmæli.

Við Lilja fögnuðum 48 ára hjónabandi 9. janúar og héldum upp á það í Berlín, borðuðum á einum af uppáhaldsmatstöðum okkar, The Grand, og sáum síðan þrjá frábæra balletta í Staatsoper, einu af þremur óperuhúsum Berlínar. Sá fyrsti var klassískur, sá næsti nútímalegur en þó byggður að mestu á klassískum dansstíl, en sá þriðji var mjög nútímalegur, jafnvel framúrstefnuballett. Gríðarflottir dansarar, enda var klappað lengur en ég á að venjast í íslenskum leikhúsum. Minnisstæður verður sessunautur Lilju, hávaxinn og stórgerður karlmaður, íklæddur kvenfötum eins og virðuleg dama um sextugt, málaður, með eyrnalokka og á kvenskóm með lágum hæl, líklega númer 45.

Gleðifrétt á afmælisdaginn

Þrátt fyrir velheppnaða viðburði afmælisdagsins í Berlín stóð samt eitt upp úr: Hildur Kristín sagði okkur frá því með tárin í augunum að hún hefði fengið tilkynningu um listamannalaun, sex mánuði sem tónskáld og þrjá mánuði að auki sem flytjandi. Þetta gerir henni kleift að sinna tónlistinni án þess að standa í harki til að ná endum saman fjárhagslega. Það er nánast ómögulegt að framfleyta sér af tónlistartekjum á Íslandi, nær allir verða að vinna aðra vinnu með, og þess vegna er frábært fyrir Hildi að fá þennan stuðning núna.

Veðursektarkennd – og óvænt refsing

Á meðan fólkið á Íslandi glímir við óveður dag eftir dag, endalausar litaðar viðvaranir og alls kyns röskun gengum við Lilja um götur Berlínar í bærilegu veðri, jafnvel sól, og þurftum varla að setja á okkur húfu eða trefil. Ekki var laust við að ég fyndi til góðviðrissektarkenndar vegna þessa og bættist hún þá við flugviskubitið sem fylgir því að ferðast til útlanda. En svo gripu einhver máttarvöld inn í og létu mig vita að ég slyppi ekki svona auðveldlega. Þriðjudaginn 14. janúar áttum við pantað flug frá Berlín til Rómar um hádegisbilið og síðan áfram til Grænhöfðaeyja eftir tveggja tíma bið. En daginn áður rak ég augun í það á vefnum að flugið til Rómar hafði verið fellt niður vegna verkfalla flugumferðarstjóra á Ítalíu milli klukkan 13 og 17. Ég náði sem betur fer að kaupa ný sæti með morgunflugi Easyjet kl. 7:30 og við vöknuðum því klukkan fjögur um nóttina til að pakka og þjóta af stað. Eftir margra stunda bið á Rómarflugvelli gátum við skráð okkur inn í flugið til Grænhöfðaeyja og engin tilkynning var um seinkun. Ég undraðist þetta, þóttist vita betur sem gamall flugstarfsmaður, enda kom á daginn að vélin frá Grænhöfðaeyjum sveigði af leið, kom aldrei til Rómar, heldur endaði í Lissabon, og síðan var flugið fellt niður. Við vorum flutt á nærliggjandi hótel ásamt 60-80 öðrum farþegum og þar fengum við fábrotinn kvöldverð, tvo einfalda pastarétti, brauð og vatn og ávexti í eftirmat. Kannski ekki hörð refsing og við tókum henni með stillingu.

Vikan sem var (1.-7. jan. 2020)

Áfram skrifað – en engar kvaðir

Ég er feginn að hafa náð að standa að mestu við áramótaheitið frá í fyrra um að skrifa 69 orða texta á hverjum degi. Í reynd skrifaði ég textann á réttum degi í svona tvö skipti af hverjum þremur, en oft komst ég ekki í að skrifa fyrr en næsta eða þarnæsta dag. Stundum stóð tæknin í vegi fyrir skrifum, stundum lá vefsíðan niðri. En útkoman er þó sú að 365 textar, ætíð 69 orð, eru skráðir á vefsíðuna og hafa veitt mér aukna reynslu og öðrum vonandi ánægju.

Nú held ég áfram að skrifa það sem mér dettur í hug hverju sinni, en ég hyggst birta textann einu sinni í viku undir heitinu Vikan sem var. Þetta er að hluta dagbók um það sem á daga mína drífur, en einnig um hugmyndir og þanka sem ég hef gaman af að glíma við.

Áramótaheit – eða fyrirætlun

Ég strengdi ekki áramótaheit að þessu sinni. Reynslan hefur kennt mér að fara varlegar í sakirnar. Það er fínt að setja sér markmið, reyna að bæta sig, ná einhverju tilgreindu marki. Ég held að þrjár forsendur þurfi að vera fyrir hendi til að útkoman verði sú sem að var stefnt.

#1 Að breytingin eða átakið verði til þess að daglegt líf manns verði betra þegar fram í sækir.

#2 Að þetta verkefni sé það skemmtilegt að löngunin til að sinna því dragi mann áfram.

#3 Að vaninn sem af þessu leiðir verði svo sterkur að líkaminn og/eða sálin beinlínis mótmæli þegar út af sporinu er farið.

Kannski þarf fleiri atriði til. Ég nota þessi þrjú til að máta við hugsun eins og t.d. þá að hætta að reykja eða drekka eða breyta næringarvenjum eða stunda meiri líkamsrækt eða hugleiðslu o.s.frv.

Mér finnst gaman að skrifa og því er það fyrirætlun mín að gefa skrifunum aukinn tíma á þessu ári. Þau uppfylla hiklaust forsendu #2 (skemmtileg) og ég trúi því að þau muni færa mér meiri innri gleði (#1betra líf), en ég á eftir að finna leið til að gera þau að vana (#3).

Ég hyggst ganga með litla vasabók og krota í hana hugmyndir og þanka í dagsins önn. Þannig vinna margir (flestir?) alvöru rithöfundar. Nú er að sjá hvernig mér gengur að gera þetta að vana (#3). Ég mun grípa til bókarinnar þegar ég skrifa vikulega pistilinn.

Gamlárskvöldstómleikinn

Fyrstu áramótin eftir að við Lilja urðum par fór ég ekki út á lífið eins og ég hafði gert mörg undanfarin ár. Ég var heima hjá henni um kvöldið og þegar ég stóð við gluggann og horfði á flugeldana um tólfleytið fann ég tómleikatilfinningu. Þetta var ekki eins og ég var vanur. Ég fór á fyrsta áramótaballið nýorðinn 16 ára gamall og næstu ár á eftir var ég oftast að spila í hljómsveit langt fram eftir nóttu, þ.e. með Strengjum í Breiðfirðingabúð og Næturgölum í Glaumbæ. Þar sem ég stóð við gluggann fannst mér eins og ég stæði á tímamótum, væri að kveðja gleði æskuáranna og stíga inn í þrengri skorður hefðbundins fjölskyldulífs. Sem betur fer hef ég aldrei fundið þessa tilfinningu síðan, er dauðfeginn að vera ekki að spila eða að vinna á gamlárskvöld og er ánægðastur með að eiga rólegt gamlárskvöld með fjölskyldunni, góðum mat og skaupinu.

Matthías níræður

Ég hafði mikla ánægju af að sjá kvikmyndina um Matthías Johannessen sem sýnd var í RÚV í tilefni af níræðisafmæli hans 3. janúar. Ég var um árabil blaðamaður á Morgunblaðinu undir hans stjórn og kynntist bæði listamanninum og blaðamanninum allvel. Hann hafði áhrif á mig með ýmsum hætti. Hann var öflugur blaðamaður með sterka tilfinningu fyrir fólki og samfélaginu og varð ein af fyrirmyndum mínum að því hvernig góður blaðamaður hugsar og starfar. Hann var auðvitað einn helsti meistari viðtalaskrifa sem Ísland hefur eignast, kallaði viðtölin reyndar samtöl. Ég notaði tækifærin á poppsíðum Morgunblaðsins til að gera tilraunir með stíl og form, án efa vegna þess að ég sá hvernig hann skrifaði. Ég hafði ekki mikinn áhuga á ljóðlist á þessum tíma en þó fór ekki hjá því að ég gæfi nýjum ljóðum hans gaum og hreifst af því hvernig hann gat fjallað um samtímann á listrænan hátt. Eftirminnilegt var þegar nokkrir blaðamenn af Mogganum settu saman litla hljómsveit og léku undir ljóðalestri hans á Listahátíð á Kjarvalsstöðum 1974 og síðar í Ríkisútvarpinu – sem rataði loks á plötu sem Fálkinn gaf út. Ég var í hljómsveitinni og lagði minn skerf í útsetningar með bassaleiknum. Nú, þegar ég er að setja skrifin í ákveðinn forgang, verður mér hugsað til Matthíasar og þakka honum fyrir góð áhrif.

Nútíminn og jólasveinar

Laugarvatnsættin heldur jólaball annað hvert ár og þar koma saman nokkrar kynslóðir afkomenda Böðvars langafa míns og Ingunnar langömmu sem áttu og bjuggu á jörðinni Laugarvatni og seldu hana síðan til ríkisins undi skólahald. Að þessu sinni var ballið fremur fámennt, líklega vegna veðurs og færðar, en góðmennt eins og jafnan. Meðal gesta voru móðursystur mínar Inga (95 ára) og Ólöf (tæplega 93 ára) með hóp afkomenda.

Jólasveinninn Skyrgámur og systir hans Skjóða voru miklu skemmtilegri en þeir jólasveinar sem ég hef séð og heyrt til seinni árin. Þau fléttuðu nútímann á fyndinn hátt inn í söngtextana og alla framkomu og augljóst var að börnin kunnu vel að meta þetta. Til dæmis var textinn við lagið Nú skal segja endurskoðaður á staðnum og athöfnunum breytt. Við, gamla fólkið, erum hætt að prjóna sokka og taka í nefið. Í stað þess var sungið: „…hvernig gamla fólkið gerir: Fer á Facebook, fer á Facebook, og svo snúa þau sér í hring“.

Þrettándinn – engin steik

Í morgunleikfiminni með karlahópi hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur (undir stjórn Gauta og Hildigunnar) hafði ég orð á því að nú væru breyttir tímar á þrettándanum. Á æskuheimili mínu var vaninn að kveðja jólin með veislumat um kvöldið, gjarnan lambahrygg eða læri með öllu tilheyrandi. Nú virðast allir löngu hættir þessu, enda eru margir komnir í megrunar- og líkamsræktarátak á nýju ári, að ekki sé talað um veganúar. Við Lilja gengum enn lengra í naumhyggjunni en flestir. Segja má að frá öðrum í nýju ári höfum við aðallega borðað afganga og reynt að nýta allt sem mögulegt var úr skápum, ísskápnum og frysti. Markmiðið var að koma í veg fyrir að fleygja þyrfti mat áður en haldið væri í 16 daga borgar- og sólarferð til Berlínar og Grænhöfðaeyja þriðjudaginn 7. jan. Það tókst bærilega. Einungis þurfti að henda um þriðjungi úr agúrku.

Ólafur Arnalds og rýnda taskan

Við flugum með Icelandair til Berlínar 7. jan., sluppum úr landi áður en óveðurskaflinn hófst. Ég hlustaði á plötu með tónlist Ólafs Arnalds í afþreyingarkerfi flugvélarinnar og þá leitaði hugurinn til tímans þegar Hildur Kristín var sellóleikari í strengjasveitinni sem fylgdi honum á sex vikna ferðalagi um Evrópu fyrir rúmum 10 árum. Eftir tónleika í Glasgow varð ferðataska Hildar eftir á gangstéttinni fyrir utan tónleikastaðinn þegar hljómsveitarrútan renndi af stað um nóttina. Rótararnir höfðu gleymt að setja hana í farangurshólf rútunnar. Seinna um daginn hringdi Hildur í mig gráti næst eftir að í ljós var komið að taskan var týnd. Ég lagði pening inn á bankareikninginn hennar til að hún gæti keypt sér föt og snyrtivörur, því að við vorum sannfærð um að taskan kæmi aldrei í leitirnar. En morguninn eftir hringdi skoskur lögreglumaður í mig í vinnuna. Þá hafði nafnspjald frá mér fundist inni í töskunni en hún var ómerkt að öðru leyti. Ég pantaði strax flutning á töskunni frá Glasgow til London í veg fyrir hljómsveitarrútuna en þó fór svo að Hildur fékk hana ekki fyrr en rúmri viku síðar, því að hljómsveitin var auðvitað á ferð og flugi og ekki auðvelt að festa stað eða stund til að taka við töskunni.